Skip to main content

Þegar von er á barni

Það er í mörg horn að líta þegar koma barns er undirbúin. Við fæðingu fyrsta barns þurfa foreldrar að sanka að sér ýmsum nauðsynjavörum fyrir barnið. Eitt af því mikilvægasta sem ungabarn þarf að eignast er bílstóll. Vanda þarf valið þar sem um öryggistæki er að ræða, að sjálfsögðu vill hvert foreldri hafa öryggi barnsins síns í fyrirrúmi. Fleiri hlutir sem þarft er að eiga er barnarúm, hvort heldur vagga eða rimlarúm. Vagn eða kerra, skiptiborð eða skiptidýna, matarstóll þegar barnið fer að borða, ömmustól og svo mætti lengi telja.  Varðandi fatnað er gott að eiga til sokkabuxur og samfellur, heilgalla og góða húfu. Ekki má gleyma hreinlætisvörum líkt og bleyjum, taubleyjustykkjum, blautklúta, bossakrem o.fl.

Bílstólar

Eins og áður kom fram er mikilvægt að vanda valið þegar kemur að bílstólakaupum. Ungbarnabílstólar eru yfirleitt frá 0-13 kg og ættu því að geta dugað barninu upp að eins árs aldri. Hægt er að kaupa stakan bílstól og festa hann með bílbelti bílsins en mjög vinsælt er orðið að kaupa svokallað base undir stólinn. Base er einskonar undirlag fyrir stólinn en hann smellist í og úr base-inu með einu handtaki. Bæði er hægt að fá base sem festist með bílbelti og base með Isofix festingum.

Isofix festingar eru í öllum nýjum og nýlegum bílum en þó mjög misjafnt eftir tegundum og árgerðum bíla. Festingarnar er að finna inn á milli sætanna en það eru tvær litlar krækjur sem Isofix festingin festist við og er base-ið og stóllinn því orðið fast við grindina í bílnum. Öruggasti kosturinn er að velja base með Isofix en festingarnar eru eins og áður sagði ekki í öllum bílum og þá er beltabase-ið alltaf góður kostur. Til þess að kanna hvort bílstóllinn eða base-ið passi í bílinn eru flestir framleiðendur með yfirlit á heimasíðum sínum yfir hvaða stólar passa í hvaða bíla.

Base-in eru ekki bara þæginleg og tímasparandi heldur sjá þau til þess að stóllinn sé ávallt festur rétt í bílinn. En ef stóllinn er einungis festur með bílbeltinu er mjög mikilvægt að festa beltið rétt utan um stólinn því ef það er ekki rétt gert gerir stóllinn ekkert gagn.

Við val á ungbarnabílstól er gott að taka tillit til þyngdar stólsins en hún skiptir miklu máli þar sem ungbarnastóllinn er burðarstóll sem foreldrar þurfa að bera oft langar leiðir. Ungbarnabílstólar eru mjög mismunandi þungir eftir framleiðendum.

Líftími og öryggi barnabílstóla

Á undanförnum áratugum hefur framleiðsla bílstóla breyst mikið hvað varðar efni, lögun og notkunareiginleika. Þegar bílstóll er framleiddur er ómögulegt að ákvarða nákvæma dagsetningu hvenær stóllinn telst vera ónýtur en framleiðendur gefa út líftíma hans. Taka þarf mið af hvernig notkun bílstólsins hefur verið háttað til að meta hvenær sé tímabært að skipta um hann.

  • Hefur stóllinn orðið fyrir miklum hitabreytingum?
  • Hefur sólin fengið að skína beint á stólinn í lengri tíma?
  • Er komin sprunga í korkinn?
  • Er komin sprunga í plastið?
  • Hefur plastið breytt um lögun eða lit?

Aldrei á að nota bílstól sem hefur orðið fyrir einhvers konar hnjaski, svo sem í árekstri eða lent í öðru óhappi (t.d. fall úr nokkurri hæð). Ef að einhverjir hlutar stólsins eru ekki lengur til staðar eða þeir brotnir, á að hætta notkun hans. Við mælum með að nota aldrei bílstól þegar saga bílstólsins er ókunn.

Endingartíminn miðast við það ár sem búnaðurinn er fyrst tekinn í notkun (þ.e. þegar hann er fyrst tekin úr umbúðunum). Ef barnabílstóll er framleiddur í apríl 2013 en keyptur og fyrst notaður 2014, þá er byrjað að telja frá 2014. Notaður barnabílstóll í geymslu telst vera í notkun. Framleiðsludagsetning barnabílstóla er hægt að finna aftan á stólunum.

Ungbarnabílstólar 

Líftími ungbarnabílstóla miðast við 5 ár frá Britax og 10 ár frá Maxi-Cosi frá fyrsta notkunar-/kaupdegi hans.

Stóll nr. 2 

Framleiðsla miðast við að líftími bílstólanna sé 8-10 ár við stöðuga notkun frá notkunar-/kaupdegi stólsins. Þegar líða fer á seinnihluta líftíma stóla í þessum flokki er sérlega mikilvægt að athuga ástands stólsins reglulega. Sumir framleiðendur taka fram í bækling að stólarnir gilda í 5 ár frá kaupdegi en ef öll upptalin atriði hér fyrir ofan eru í lagi að þá getur stóllinn dugað í 8-10 ár.

Stóll nr. 3

Bílpúðar með baki hafa sama líftíma og bílstólar nr. 2 eða 8-10 ár frá fyrsta notkunar-/kaupdegi hans.

Base

Líftími á base-um miðast líka við frá fyrsta notkunardegi og eru 8-10 ár. Eins miðast base-in við að ekki séu komin þreytumerki í plastið eða að base-ið hafi orðið fyrir hnjaski og það sama og nefnt er varðandi bílstólana hér að ofan.

Bílstólar eru  öryggisbúnaður og þurfa að uppfylla ákveðnar öryggiskröfur. Þann 1. júlí 2013 tók í gildi breyting á reglugerð um notkun öryggis- og verndarbúnaðar í ökutækjum sem fól í sér meðal annars að allur öryggisbúnaður í bílum þarf að uppfylla evrópskar öryggiskröfur. Þessi breyting á fyrri reglugerð var gerð í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins 2003/20/EB og gerð til að stuðla enn frekar að auknu öryggi barna í ökutækjum. Sé stóllinn merktur  ECE 44.03 eða 44.04 uppfyllir hann evrópskar öryggiskröfur.