Mikið úrval er af kerrum og vögnum á markaðnum í dag. Mörgum finnst það sem er í boði virka mjög svipað og vera eins við fyrstu sýn. Þegar betur er að gáð er margt frábrugðið og stundum eru það smáatriðin og/eða tilgangur notkunar sem greinir á milli.
„Hvernig ætla ég að nota kerruna eða vagninn og er eitthvað sérstakt sem ég þarf að hún geri fyrir mig?“
Mikilvægt er að huga að því hvaða eiginleikar það eru sem leitað er að og hentar hverjum og einum. Flestar kerrur og vagnar sem eru í boði bjóða upp á að smella bílstól á grindina og bjóða möguleikan á vagnparti, sem er þá í mörgum tilfellum keyptur sérstaklega. Gott er að ákveða hvernig skal nota kerruna eða vagninn, hvort sé notaður í lengri göngutúra eða meira á snattið, inn og út úr bíl.
„Hver er þá munurinn og hvað skal skoða vel?“
Munurinn liggur oft í kerrugrindinni sjálfri, styrkleika, hjólunum og gæðum. Einnig getur verið mikill munur á kerrusætinu sjálfu, þá með tilliti til hvaða stillingar sætið býður upp á og hversu langt það er. Hér á landi skiptir miklu máli hversu vel hægt er að loka kerrum og vögnum og hversu þéttleikinn er mikill.
Mikilvægt er að skoða kerrustykkið vel þó svo að það sé hægt að fá vagnpart á kerrugrindina, því kerran/vagngrindin nýtist mun lengur með kerrusætinu heldur en vagnpartinum.